Risin upp frá dauðum

23:12

Jú hæ.

Ég er komin hingað aftur. En er þó ekki hætt á Gekkó. Þvert á móti. Ég ákvað bara að bæta þessari síðu við mig því ég hef svo lítið að gera ehm. Samhliða 32 eininga önn. Og 50% vinnu. Og verandi ófrísk. Í framkvæmdum. Þið skiljið. Ekkert að gera hjá mér.

Jú annars vegar ákvað ég að endurvekja þessa síðu vegna þess að við Stefán erum í framkvæmdum. Við keyptum nýlega íbúð í Mosfellsbæ og erum búin að vera grúska í henni síðastliðnu mánuði. Og þar sem ég er veik fyrir "fyrir/eftir" bloggum á íbúðum að þá ákvað ég að leyfa þeim sem hafa áhuga að fylgjast með.

Eins er ég ófrísk og í lok maí bíður mín nýtt og krefjandi hlutverk. Það eru líka svo mikið af kunningjum, frænkum og frændum þarna úti sem maður hittir ekki reglulega sem hafa eflaust gaman af barnamyndum og hamfarasögum af sjálfum mér.

Æ svo veit maður ekki. Ég tek oft svona köst þar sem ég fer að henda einhverju í framkvæmdir og nenni svo ekki að sjá um það í marga mánuði. Þannig að það má búast við því af mér. Eins og staðan er núna finnst mér ég geta sigrað heiminn með þessum tveimur vefsíðum, náminu og vinnunni en einhverntímann þarf maður að forgangsraða og þá fer vefsíðan aftast í goggunarröðina. Til að vera líka kýrskýr þá er ég ekki á höttunum eftir sponsi frá fyrirtækjum og fá vörur í bílförmum heim til mín til að skrifa um. Ég er, eins og alltaf, bara að þessu til þess að gefa ykkur afþreyingarlesefni og gefa mér grundvöll til að tuða um tilgangslausa hluti.

Ferðatips og bloggin verða samt flest öll á Gekkó. Sem er snilldarsíða fyrir ferðalanga. Og ég mæli með fyrir alla með ævintýraþrá. Já ég skrifaði og í byrjun setningar. Sé ekki eftir því.

Enn já. Að óléttunni. Sem kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það er skemmtileg saga hvernig það kom í ljós. Ég var nefninlega á leiðinni í aðgerð. Kviðholsspeglun heitir það víst. Ég var að láta athuga hvort ég væri með endómítríósu eða legslímsflakk eins og það heitir á góðri íslensku. Veit varla um ógeðfelldara orð en ég læt það liggja á milli hluta. Ég fékk nefninlega smá panic eftir vitundavakninguna sem þeir standa fyrir í marsmánuði um að ég væri ófrjó en einn af fylgikvillum sjúkdómsins er erfiðleikar með að eignast barn. Svo fyrir áhugasama þá hef ég glímt við óbærilega túrverki frá bernsku. Við erum ekkert að tala um ,,fáðu þér einn banana og íbúfen og allt verður í lagi". Nei. Við erum að tala um yfirlið í uppþvottavélina heima, spítalaheimsóknir og frá vinnu alltaf 1x í mánuði útaf verkjum. Ég var að sturlast á þessu og vildi fá svör strax. Þá ákvað kvennsjúkdómalæknirinn minn að framkvæma aðgerð á mér, að þetta gengi ekki lengur að vera svona alla mánuði ársins.

Allavega, ég er mætt niður á Kvennadeild, berrössuð undir slopp og er á leið uppá skurðstofu. Þar er hjúkrunarfræðingur sem spyr mig 380 spurninga og þar á meðal: ,,hvenær voru síðustu blæðingar?" ehh. Ég veit það ekki. Ég man varla hvað ég gerði í síðustu viku. En ég hugsaði mig um og sagði: ,,Tja, í byrjun september - en það gerist alveg að ef ég er stressuð að þá verða þær óreglulegar". Gott og blessað og ég er keyrð uppá skurðstofu og er mætt á stálborðið, skítandi á mig úr hræðslu enda ferlega óvön aðgerðum (sem betur fer!). Kvennsjúkdómalæknirinn minn spjallar við mig og spyr mig að sömu spurningu og hjúkkan og ég svara því sama: ,,æ í byrjun september". Hún sagði að hún myndi nú taka próf til öryggis þegar að ég yrði svæfð en að það gerðist nú aldrei að það væri einhver ólétt 5 mínútum í aðgerð. Ég fæ svo grímu yfir mig og er svo gott sem rotuð og veit ekki betur en ég fari í aðgerðina.

Hálftíma seinna ranka ég við mér fyrir utan skurðstofuna þar sem kvennsinn minn heilsar mér. Þetta var eins og í atriði úr Grey's Anatomy. Allt í móðu og ég gat ekki fókusað á hana. Hún muldrar eitthvað og ég skil ekki orð. Þangað til að hún réttir mér poka með óléttuprófi og það eina sem ég næ er ,,það var engin aðgerð elskan, þú ert ófrísk". Ég, eins og ég hafi verið nývöknuð af heljarinnar djammi, skil ekki neitt - tek óléttuprófið af henni og sofna aftur. Vakna svo þegar að það er verið að keyra mig niður og brosi útaf eyrum. Hringi svo í Stefán og hann heldur að eitthvað vont hafi gerst, enda átti ég að vera í aðgerðinni fram að hádegi. Hann spyr í móðursýkiskasti hvort það sé ekki allt í lagi. Ég sagði honum að hann mætti koma að sækja mig - aðgerðin hefði ekki verið framkvæmd því ég væri ófrísk!

Skiljanlega vorum við bæði í sjokki en við tókum fréttunum afar vel! Erum svo spennt fyrir nýja hlutverkinu og ég get varla ímyndað mér betri verðandi pabba en Stefán.

-

Ástandið núna. Komin 29 vikur. 

En eftir að hafa verið að taka síðuna í gegn, veljandi litapallettur og skriftir í þrjá tíma og deila með ykkur alltof miklu í fyrstu færslu ætla ég að segja þetta gott. Það munu koma færslur á næstunni varðandi íbúðina. Ég lofa.

Ykkar Guffa!


You Might Also Like

0 ummæli

VINSÆLUSTU FÆRSLURNAR

HAFA SAMBAND

gudfinnabirta@gmail.com