Markholt Makeover

11:44


Íbúðarfærslan sem ég lofaði!

Við keyptum þessa íbúð á klink. Kannski ekki nokkra krónupeninga en klink miðað við fasteignabóluna í dag. Hún er líka í Mosfellsbæ, svona u.þ.b. 17 kílómetrum frá því þar sem við vildum upprunarlega vera - í hlíðunum eða einhverstaðar miðsvæðis. Þið þekkið þetta. Sama gamla klausan.

Eftir að hafa legið yfir fasteignavefnum í allt sumar, horft á tugi íbúða fara á yfirboðnu verði fengum við nóg. Við ákváðum að víkka leitina. Nota bene þarna vorum við ekki orðin ólétt og forsendurnar þar af leiðandi allt öðruvísi. Þá vorum við til í 30 fm risíbúð á 30 milljónir. En um leið og við föttuðum að ég væri ólétt breyttust forsendurnar. 3gja herbergja íbúð, í ,,grónu" hverfi. Kræst hvað ég hljóma eins og gömul kona. En þetta er staðreynd. Og ekki leist okkur á blikuna þegar að við föttuðum að við þurftum að stækka við okkur með greiðslumat uppá 26 milljónir. En stundum er ljós í myrkrinu og þar var þessi íbúð. Á skidt og ingeting.



Ég hélt að pabbi væri orðin eitthvað veruleikafirrtur þegar að hann sýndi mér þessa á fasteignavefnum. Hann náði samt að sannfæra mig um að skoða hana sem við gerðum. Íbúðin leit ekkert það illa út, frekar illa lyktandi og með úreltum eldhús- og baðinnréttingum sem við vildum ekki hafa. Húsið er líka gult í þokkabót. Ekki krúttlega gult heldur svona ,,þarf að mála ASAP" gult. Svo er stigi upp að íbúðinni okkar sem þarfnast lagfæringar. Yfir heildina er húsið samt í niðurníslu og það þarf róttækar breytingar til þess að viðhalda því og gera það að flottu húsi.

Íbúðin var samt með sér inngangi, tveimur svefnherbergjum, nóg af bílastæðum, risa garði og sameiginlegum svölum. Sameiginlegar svalir er kannski ekki mest sjarmerandi hlutur sem maður heyrir en þá er allavega það tækifæri að geta hent þvotti út (þegar ég fer að vera eitthvað húsmæðraleg) og jafnvel skella barnavagninum í góðu veðri. Eins var hún 67,5 fermetrar sem er þæginlega stórt fyrir litla fjölskyldu.

Salt til að eiga alltaf salt í grautinn, rúgbrauð til að við verðum aldrei svöng og klink svo við verðum aldrei blönk. 


Það þarf að gera mikið fyrir hana en við sjáum mikla möguleika í að gera hana flotta. Það þarf að ráðast á garðinn í sumar, klæða húsið og skipta um öll þök (þeim er s.s. skipt í þrennt).

Hérna eru fyrir myndirnar. Haldið ykkur fast.

Þrengsta baðherbergi fyrr og síðar. Áhugaverð litapalletta.

Þröngt á þingi. 

Loftið var tekið niður. 

Ég var rosalega skotin í hólfinu þarna fyrir sjampólagerinn minn. Þegar skytturnar þrjár (Pabbi, Stefán og tengdó) reyndu að taka flísarnar af voru þær svo fastar við vegginn að veggurinn sjálfur var farinn með. Þannig að það var ákveðið að gipsa bara fyrir gatið. 

Séð inní svefnherbergi. 

Baðherbergið í allri sinni dýrð. Við stækkuðum það töluvert. 

Stofan aftur. Ég er samt sjúk í gluggana. 

Eldhúsinnréttingin. Sem minnir helst á einhverskonar vinnuaðstöðu hjá dýralækni eða slátrara. Hún seldist á 20.000 krónur believe it or not. Baðherbergið nær núna að eldavélinni. 

Barnaherbergið. Þessi gluggakista verður máluð hvít. 

Þessi veggur var færður örlítið til. Fyrir hliðina á eldavélinni má sjá pláss fyrir þvottavél. Við ákváðum að færa þetta þannig að tengið fyrir þvottavélina væri inná baði frekar. Eins var veggurinn minnkaður um helming þar sem að það er svo lummó að vera með hurð inná eldhús. Hver vill hanga í eldhúsinu með lokaða hurð? Enginn!

Aftur séð inn í stofu. Bletturinn á gólfinu var s.s. úr þakinu en það er ónýtt.


Alveg hreint út sagt dásamlegar appelsínugular flísar í suðrænum litatón í forstofunni. Skemmtilegt hvernig tískan breytist ;-) Eins nóg af fjölpósti. 

 Séð frá stofunni og inn í eldhús. Ofninn og vegginn á að rífa niður.

Sameiginlega svalahurðin. Þarna þarf einhver sniðugur að koma með tips fyrir mig hvernig er hægt að hylja þennan glugga á penan hátt. 


Til að upplýsa ykkur í stuttu máli hvað þarf að gera í íbúðinni áður en við flytjum inn:

  • Skipta um þak (kom í ljós að þakið var handónýtt og það er að hamla því að við getum flutt inn)
  • Taka eldhúsið í gegn (ný innrétting, hiti í gólf)
  • Taka baðherbergið í gegn (ný innrétting, flísaleggja, hiti í gólf)
  • Skipta um flísar í anddyri
  • Stækka baðherbergið/Minnka eldhúsið
  • Taka millivegginn í burtu í eldhúsinu
  • Mála alla veggi


Næsta færsla verður meira til að sýna ykkur þær framkvæmdir sem eru búnar og eru að eiga sér stað. Eftir að hafa sett þessar myndir hingað inn sé ég það bersýnilega að mig vantar víðlinsu til að sýna ykkur þetta betur og biðst ég velvirðingar á lélegum myndgæðum!

Guffa 

You Might Also Like

0 ummæli

VINSÆLUSTU FÆRSLURNAR

HAFA SAMBAND

gudfinnabirta@gmail.com